Anna Katrín Viðisdóttir var valin íþróttamaður Hrunamannahrepps árið 2022 en viðurkenningin var afhent á hátíðardagskrá þjóðhátíðardagsins eins og venja hefur verið.
Á síðasta ári var Anna Katrín lykilmaður í sameiginlegu liði Hrunamanna og Selfoss í 10. flokki kvenna í körfubolta. Hún var síðan valin í U16 ára landsliðið sem tók þátt í bæði Norðurlandamóti í Finnlandi og Evrópukeppni í Svartfjallalandi. Anna Katrín var fyrirliði liðsins og skilaði því hlutverki vel. Hún er mjög jákvæður leiðtogi á vellinum og drífur liðsfélaga sína áfram með góðu hugarfari. Anna Katrín er einnig öflugur sjálfboðaliði hjá körfuknattleiksdeild Hrunamanna og hefur tekið að sér fjölmörg störf, meira að segja eftir að hún skipti um félag en frá haustinu 2022 hefur hún leikið með sameiginlegu liði Hamars/Þórs i 1. deild kvenna.
Auk Önnu Katrínar fengu sérstakar viðurkenningar fyrir íþróttaafrek á árinu 2022 þau Aldís Fönn Benediktsdóttir og Kormákur Hjalti Benediktsson, bæði fyrir frjálsar íþróttir.