Anna María leggur skóna á hilluna

Anna María eftir síðasta leikinn á ferlinum ásamt syni sínum, Ásbirni Breka Blöndal. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Anna María Friðgeirsdóttir, leikjahæsta knattspyrnukona Selfoss fyrr og síðar, hefur lagt skóna á hilluna. Hún tilkynnti þetta eftir leik Selfoss og Grindavíkur í lokaumferð 1. deildarinnar um síðustu helgi.

„Ég setti mér það markmið sem ungur leikmaður að hætta þegar stórum titli væri skilað í hús, það tókst og ég er ótrúlega stolt að hafa fengið að leiða liðið mitt í gegn um það ævintýri. Aftur á móti urðu árin aðeins fleiri en áætlað var og eftir 30 ár í vínrauða búningnum með Selfossmerkið á brjóstinu er tími til að kveðja og þakka fyrir mig,“ sagði Anna María í færslu á samfélagsmiðlum.

„Það er sárt að skilja við liðið á þessum stað en eina leiðin er upp á við og liðið er stútfullt af ungum hæfileikabúntum sem taka við keflinu,“ segir Anna María ennfremur en Selfoss féll úr 1. deildinni í sumar og mun leika í 2. deildinni að ári.

Anna María lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Selfoss árið 2009 og hefur samtals leikið 285 leiki fyrir félagið, þar af 136 í efstu deild. Hún var fyrirliði liðsins sem varð bikarmeistari sumarið 2019 og meistari meistaranna 2020.

Anna María Friðgeirsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Bikarafhendingin í meisturum meistaranna var óvenjuleg vegna COVID-19 en hér „afhendir“ Guðni Bergsson, formaður KSÍ, Önnu Maríu Friðgeirsdóttur, fyrirliða Selfoss, bikarinn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Anna María Friðgeirsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinHesthús eyðilagðist í eldsvoða
Næsta greinJafnrétti, hugrekki og loftslagsaðgerðir á opnunarviðburði FKA