Anna Pálsdóttir, Umf. Selfoss, heldur áfram að bæta sig í spjótkasti en hún setti nýtt Selfossmet á Júnímóti FH sem fram fór í Kaplakrika í kvöld.
Anna kastaði 40,86 m og sigraði í greininni en þetta er þriðja bæting hennar í sumar og í fyrsta skipti sem hún kastar yfir 40 metra. Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, varð þriðja í spjótkastinu með kast upp á 22,37 m.
Í spjótkasti karla kepptu þrír sunnlendingar og röðuðu þeir sér í þrjú efstu sætin enda ekki fleiri keppendur í greininni. Selfyssingurinn Örn Davíðsson sigraði örugglega en hann keppir fyrir FH. Örn kastaði 63,10 m. Bróðir hans, Þór Davíðsson Umf. Selfoss, varð annar með kast upp á 37,27 m og Haraldur Einarsson, HSK, var þriðji með 36,11 m kast.
Til stóð að Haraldur myndi keppa í 200m hlaupi og Fjóla Signý í 200m hlaupi og langstökki. Keppni í þeim greinum var hins vegar felld niður vegna öskurykmengunar í Hafnarfirðinum.