Anna Metta Óskarsdóttir, Umf. Selfoss, stórbætti sig í þrístökki og setti Íslandsmet í tveimur aldursflokkum á Silfurleikum ÍR í Laugardalshöllinni í gær.
Anna Metta stökk 11,46 m sem er Íslandsmet bæði í flokki 14 og 15 ára. Stökkið er jafnframt þriðja lengsta þrístökk ársins í kvennaflokki og héraðsmet í fjórum aldursflokkum. Anna Metta átti sjálf héraðsmetið í 14 og 15 ára flokknum, 11,24 m, en í 16-17 ára flokknum bætti hún 25 ára gamalt met Ágústu Tryggvadóttir, sem var 11,38 m og í 18-19 ára flokknum bætti hún 21 árs gamalt met Bryndísar Evu Óskarsdóttur, Umf. Selfoss, sem var 11,43 m.
Þá tvíbætti Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, HSK-metið í kúluvarpi í flokki 16-17 ára. Hjálmar Vilhelm stórbætti þar met Arnar Davíðssonar, Umf. Selfoss, en hann kastaði fyrst 14,51 m og átti síðan glæsilegt kast upp á 15,18 m en eldra met Arnar var 14,35 m. Hjálmar sigraði einnig í hástökki með góðri bætingu og stökk 1,90 m sem er jafnframt fjórða hæsta stökk ársins í karlaflokki.
Sunnlendingar fjölmenntu á Silfurleikana og unnu til fjölda verðlauna og margar góðar bætingar litu dagsins ljós. Leikarnir eru haldnir árlega til þess að minnast afreks Vilhjálms Einarssonar á Ólympíuleikunum í Melbourn árið 1956 þar sem hann vann silfurverðlaun. Sonur hans, Einar Vilhjálmsson, var heiðursgestur leikanna í ár.