Annar áfangi stúkunnar boðinn út

Sveitarfélagið Árborg hefur auglýst eftir tilboðum í 2. áfanga nýju stúkunnar á Selfossvelli og á verkþættinum að vera lokið þann 21. maí næstkomandi.

Um er að ræða innan- og utanhússfrágang sem felur m.a. í sér að steypa botnplötu og veggi, uppsetningu léttra innveggja, lagnir og raflagnir. Þessum áfanga er skipt upp í þrjá hluta og á verkinu að vera lokið innanhúss þann 7. maí en utanhúss þann 21. maí.

Flatarmál stúkunnar er 313 fermetrar en undir stúkunni eru meðal annars fjögur búningsherbergi, ásamt dómaraherbergi, skrifstofu- og fundaraðstöðu og herbergi fyrir lyfjapróf og læknaaðstöðu.

Lokaáfanginn verður boðinn út síðar en þá verður gengið frá þakinu yfir stúkuna og aðstöðu fyrir fjölmiðlamenn.

Tilboð í verkið verða opnuð þann 31. janúar.

Fyrri greinGreiddu reikninginn en telja framkvæmdina ámælisverða
Næsta greinML áfram í Gettu betur