Annar sigur Árborgar í höfn

Andrés Karl Guðjónsson er markahæstur Árborgara. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg vann góðan sigur á Höfnum í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld, þegar liðin mættust á Selfossvelli.

Andrés Karl Guðjónsson kom Árborg yfir á 10. mínútu og hann var aftur á ferðinni í uppbótartíma fyrri hálfleiks og Árborg leiddi 2-0 í hálfleik. Hafnir sóttu mikið í leiknum en varð ekkert ágengt gegn sterkri vörn Árborgar.

Ingi Rafn Ingibergsson gerði svo endanlega út um leikinn með þriðja marki Árborgar á 61. mínútu þegar hann lék á hvern leikmann Hafna á fætur öðrum – og suma tvisvar – áður en hann lagði boltann í netið.

Með sigrinum lyfti Árborg sér upp í 2. sæti C-riðilsins með 9 stig, þremur stigum á eftir toppliði Uppsveita.

Fyrri greinFimmti sigur Selfoss í röð
Næsta greinLakið áfram hreint hjá Ægismönnum