Kvennalið Hamars vann sinn annan sigur í Domino’s-deild kvenna í körfubolta í vetur þegar liðið heimsótti Breiðablik í dag. Lokatölur urðu 50-66.
Hamar byrjaði betur og komst í 5-9 en Blikar svöruðu þá með 15-3 áhlaupi og leiddu 20-12 að loknum 1. leikhluta. Hamar saxaði á forskot Blika í upphafi 2. leikhluta og Hvergerðingar skoruðu svo síðustu ellefu stigin í fyrri hálfleik og tryggðu sér 26-28 forystu í leikhléi.
Þriðji leikhluti var jafn en Hamar leiddi að honum loknum, 44-50. Það var ekki fyrr en í síðasta fjórðungnum að Hvergerðingar náðu að slíta Blika frá sér. Hamar var í góðri stöðu um miðjan leikhlutann og jók svo við forskotið áður en yfir lauk.
Sydnei Moss skoraði 25 stig fyrir Hamar og tók 12 fráköst. Þórunn Bjarnadóttir skoraði 11 stig, Kristrún Rut Antonsdóttir 9, Salbjörg Sævarsdóttir 8, Heiða B. Valdimarsdóttir 6, Sóley Guðgeirsdóttir 5 skoraði stig og tók 10 fráköst og Helga Vala Ingvarsdóttir skoraði 2 stig.