Annar sigur Selfyssinga í vetur

Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst með 9 mörk. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fallið lið Selfoss vann öruggan sigur á Stjörnunni í næst síðustu umferð Olísdeildar kvenna í handbolta á útivelli í Garðabæ í dag, 27-32.

Þetta var annar sigur Selfossliðsins í deildinni í vetur.

Selfoss náði fljótlega fjögurra marka forskoti en munurinn varð mestur fimm mörk í fyrri hálfleik, 7-12 á 20. mínútu. Þá tók við frábær kafli hjá Stjörnunni sem jafnaði 14-14 og staðan var svo 16-15 í leikhléi.

Selfoss jafnaði 18-18 í upphafi seinni hálfleiks og eftir það var jafnt á öllum tölum þar til fimmtán mínútur voru eftir. Selfoss náði þá frumkvæðinu og jók forskotið í tvö mörk. Á lokakaflanum spilaði Selfossliðið af öryggi og forskotið jókst enn frekar en að lokum skildu fimm mörk liðin að.

Perla Ruth Albertsdóttir lék mjög vel fyrir Selfossliðið í dag, var markahæst með 9 mörk úr 9 tilraunum, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði 8 mörk, Katla María Magnúsdóttir 7, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir 3/2, Carmen Palamariu 2 og þær Rakel Guðjónsdóttir, Sarah Sörensen og Tinna Sigurrós Traustadóttir skoruðu allar 1 mark.

Katrín Ósk Magnúsdóttir lék vel í marki Selfoss, varði 15 skot og var með 36% markvörslu.

Fyrri greinFólk í sjálfheldu ofan Reykjadals
Næsta greinSelfyssingar sannfærandi í seinni hálfleik