Knattspyrnufélag Árborgar sigraði Afríku í 1. umferð Valitor-bikar karla í knattspyrnu í kvöld, 1-7.
Leikurinn átti að fara fram á Leiknisvelli í Breiðholti kl. 14 í dag en sökum snjóþyngsla á höfuðborgarsvæðinu var leikurinn færður á Selfoss og hófst kl. 18.
Árborg var nokkra stund að finna taktinn og Afríka var síst lakari aðilinn fyrstu þrjátíu mínúturnar. Guðmundur Garðar Sigfússon og Guðmundur Ármann Böðvarsson skoruðu báðir á síðasta korteri fyrri hálfleiks og staðan var 0-2 í leikhléinu.
Árborgarar voru mun yfirvegaðaðri í seinni hálfleik og áttu margar ágætar sóknir. Guðmundur Ármann innsiglaði þrennuna með tveimur mörkum á fjórum mínútum en Afríka klóraði í bakkann á 67. mínútu með marki úr vítaspyrnu. Óskar Guðjónsson braut þá af sér innan teigs og uppskar gult spjald. Hann var ekki hættur því hann fékk sína aðra áminningu sjö mínútum síðar fyrir háskalega tæklingu og fór því snemma í sturtu.
Manni færri hélt Árborg áfram að stjórna leiknum og bætti við þremur mörkum á síðustu fimm mínútum leiksins. Hjörvar Sigurðsson skoraði tvö þeirra og Magnús Sigurðsson eitt en báðir komu þeir inná sem varamenn.
Árborg mætir KFS í 2. umferð en liðin leika í Vestmannaeyjum nk. sunnudag.