Lokaumferð 4. deildar karla í knattspyrnu fór fram í kvöld. Árborg átti möguleika á 2. sætinu fyrir leiki kvöldsins en þurfti að vinna sinn leik og treysta á að KFK tapaði stigum gegn botnliði Uppsveita.
Það gekk ekki upp því KFK sigraði Uppsveitir 16-0 og fór Kópavogsliðið því upp ásamt Vængjum Júpíters.
Árborg vann hins vegar öruggan sigur á Álftanesi þegar liðin mættust á Selfossi. Aron Freyr Margeirsson og Hrvoje Tokic skoruðu í fyrri hálfleik fyrir Árborg og Tokic bætti svo við þremur mörkum í seinni hálfleiknum og tryggði Árborg 5-0 sigur. Árborgarar urðu í 3. sæti deildarinnar, einu stigi á eftir KFK.
Hamar fékk topplið deildarmeistarana, Vængi Júpíters í heimsókn á Grýluvöll og þar var boðið upp á bráðfjöruguan leik. Hamar komst í 2-1 í fyrri hálfleik en staðan var 3-3 í leikhléi. Gestirnir voru sterkari í seinni hálfleiknum, skoruðu tvö mörk og tryggðu sér 3-5 sigur. Bjarki Rúnar Jónínuson, Guido Ranchez og Tóbías Breiðfjörð Brynleifsson skoruðu mörk Hamars.
Uppsveitir töpuðu sem fyrr segir 16-0 gegn KFK, sem er stærsta tap félagsins frá upphafi. Staðan var 6-0 í hálfleik en Uppsveitir kvöddu deildina með því að fá tíu mörk á sig í seinni hálfleiknum og munu leika í 5. deild að ári.