Þrjú sunnlensk lið, Árborg, Gnúðverjar og KFR, léku í dag í undankeppni Borgunarbikarkeppni karla í knattspyrnu.
Knattspyrnufélag Árborg tryggði sér áframhaldandi þátttöku þegar liðið sigraði Kóngana 9-0 á Selfossvelli, en staðan í leikhléi var 3-0.
Árborgarar byrjuðu ekki markaveisluna fyrr en á 33. mínútu en þá komu þrjú mörk á níu mínútna kafla. Veislan hélt áfram í seinni hálfleik þegar heimamenn bættu við sex mörkum.
Tómas Ingvi Hassing skoraði fjögur mörk, Daníel Ingi Birgisson skoraði tvö mörk og Magnús Helgi Sigurðsson, Tómas Kjartansson og Halldór Áskell Stefánsson skoruðu eitt mark hver.
Árborg mætir annað hvort Herði eða KFG í næstu umferð, en þessi tvö leið leika á morgun um hvort liðið kemst áfram.
Gnúpverjar töpuðu 3-1 á útivelli gegn Vængjum Júpíters í framlengdum leik. Staðan í leikhléi og eftir venjulegan leiktíma var 1-1. Í framlengingunni skoruðu heimamenn tvö mörk gegn engu marki Gnúpverja.
Rangæingar fóru á Samsung-völlinn í Garðabæ og mættu þar heimamönnum í Skínanda. Heimamenn byrjuðu leikinn mun betur og leiddu í leikhléi 3-0.
Þeir bættu svo við fjórða markinu í upphafi seinni hálfleiks áður en Helgi Ármannsson minnkaði muninn fyrir KFR með tveimur mörkum. Skínanda-menn skoruðu svo síðustu tvö mörk leiksins og tryggðu sér 6-2 sigur.