Árborg fór langleiðina með að tryggja sér sæti í úrslitakeppni 4. deildar karla í knattspyrnu með því að sigra Hamar, 2-1, í æsispennandi nágrannaslag á Selfossvelli í kvöld.
Það var mikið í húfi fyrir bæði lið í þessum leik og það sýndi sig á upphafsmínútum leiksins þar sem hart var tekist á og taugar leikmanna virtust þandar til hins ítrasta.
Árborg komst yfir strax á 4. mínútu með glæsilegu marki. Tómas Kjartansson tók þá aukaspyrnu frá hægri, beint á kollinn á Magnúsi Helga Sigurðssyni sem stangaði knöttinn í netið.
Fimm mínútum síðar slapp Daníel Rögnvaldsson einn inn á vítateig Árborgar en skaut rétt framhjá markinu. Hamarsmenn uppskáru hins vegar jöfnunarmark á 20. mínútu, boltinn barst fyrir mark Árborgar þar sem varnarmaðurinn Arnar Freyr Óskarsson ætlaði að hreinsa frá en hitti boltann illa og þrumaði honum með tánni upp í þaknetið.
Þegar leið á fyrri hálfleikinn var leikurinn jafn og liðin skiptust á að gera áhlaup. Á 40. mínútu uppskáru Árborgarar mark eftir að Hartmann Antonsson slapp inn á vítateig Hamars. Hann náði skoti af miklu harðfylgi sem fór í stöngina og þaðan í Nikulás Magnússon, markmann Hamars, og inn.
Í aðdraganda marksins höfðu Árborgarar fengið innkast, þrátt fyrir að boltinn hafi ekki farið útaf vellinum og voru Hvergerðingar skiljanlega ósáttir við það. Það voru ekki einu mistök dómaratríósins í dag en dómari leiksins átti hreint ekki gott kvöld og ákvarðanir hans virtust mjög handahófskenndar.
Staðan var 2-1 í hálfleik og við tók æsispennandi síðari hálfleikur.
Hvergerðingar voru sterkari aðilinn í seinni hálfleik en þeir náðu ekki að skapa sér mörg færi. Árborgarar áttu nokkrar stórhættulegar skyndisóknir og besta færi heimamanna átti Halldór Áskell Stefánsson þegar hann skallaði boltann í stöngina á marki Hamars á 54. mínútu.
Þegar leið á leikinn var sóknarþungi Hamars verulegur og Einar Guðni Guðjónsson, markvörður Árborgar, varði meðal annars tvívegis ágætis tilraunir frá Þorláki Dagbjartssyni undir lok leiks. Varnir beggja liða héldu í seinni hálfleik og niðurstaðan 2-1 sigur Árborgar.
Með sigrinum endurheimtir Árborg toppsæti riðilsins með 25 stig og eins og staðan er núna þarf liðið aðeins þrjú stig til viðbótar til að tryggja sæti sitt í úrslitakeppninni. Árborg á eftir að spila við ÍH sem er í 2. sæti og botnlið Kónganna í síðustu tveimur leikjunum.
Hamar er með 18 stig í 3. sæti deildarinnar og á ennþá möguleika á sæti í úrslitakeppninni, ef Árborg eða ÍH misstíga sig á lokasprettinum. Næsti leikur Hamars er einmitt gegn ÍH á Grýluvelli þann 7. ágúst.