Árborg tryggði sér í kvöld sæti í úrslitakeppni 4. deildar karla í knattspyrnu og Uppsveitir hafa nánast tryggt sér toppsætið í C-riðlinum eftir leiki kvöldsins.
Árborg tók á móti Berserkjum/Mídasi og vann öruggan 5-0 sigur. Hinn 17 ára gamli Elvar Orri Sigurbjörnsson fór á kostum í sínum fyrsta deildarleik í meistaraflokki og skoraði þrennu. Andrés Karl Guðjónsson skoraði tvívegis fyrir Árborg sem náði með sigrinum í kvöld að tryggja sig inn í úrslitakeppnina og sömuleiðis að minnsta kosti sæti í hinni nýju 4. deild á næsta tímabili.
Leikur toppliðs Uppsveita gegn botnliði KM á gervigrasinu við Kórinn í Kópavogi var leikur kattarins að músinni. Lokatölur urðu 10-0 en þetta er stærsti sigur Uppsveita á Íslandsmótinu frá upphafi. George Razvan gerði sér lítið fyrir og skoraði sex mörk í leiknum en hann hefur nú skorað 36 mörk í 12 leikjum fyrir Uppsveitir. Ignacio Poveda skoraði tvö mörk í sínum fyrsta leik fyrir félagið, Francisco Vano eitt og eitt markið var sjálfsmark eftir stoðsendingu Arons Freys Margeirssonar.
Staðan í C-riðlinum er þannig að Uppsveitir eru á toppnum með 33 stig og Árborg er í 2. sæti með 28 stig.