Óvænt úrslit urðu í A-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld þegar topplið Árborgar tapaði fyrir botnliði Afríku, 2-1 á útivelli.
Afríka komst í 1-0 á 35. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Í síðari hálfleik var Árborgurum fyrirmunað að skora, þrátt fyrir góð færi. Afríka bætti við öðru marki á 89. mínútu en í uppbótartíma fengu Árborgarar vítaspyrnu og úr henni skoraði Magnús Helgi Sigurðsson.
Árborg heldur toppsætinu enn um sinn en gæti misst af því á laugardaginn þegar Berserkir spila leik sem þeir eiga til góða. Bæði liðin hafa tryggt sér sæti í úrslitakeppni deildarinnar.