Knattspyrnufélag Árborgar hóf titilvörn sína í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu með sigri á Augnablik á Selfossvelli í dag, 3-1.
Leikurinn fór fram í sunnanroki og má segja að nær allur leikurinn hafi farið fram á nyrðri vallarhelmingnum. Árborg sótti með vindinn í bakið í fyrri hálfleik og uppskar snemma tvö mörk. Fyrra markið var sjálfsmark en það síðara skoraði Guðmundur Eggertsson í sínum fyrsta leik fyrir félagið.
Augnablik sótti stíft með vindinn í bakið fyrstu 20 mínútur síðari hálfleiks. Þeir minnkuðu muninn um miðjan hálfleikinn eftir augnabliks einbeitingarleysi í vörn Árborgar. Guðmundur Garðar Sigfússon gerði síðan út um leikinn á 78. mínútu með bylmingsskoti utan úr teig. Þetta var ein af fáum sóknum Árborgar í síðari hálfleik, sem síðan héldu boltanum betur á lokamínútunum.