Knattspyrnufélag Árborgar vann stórsigur á Létti í toppslag riðils-3 í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag.
Liðin mættust á ÍR-vellinum í Breiðholti og Árborg komst í 0-3 eftir aðeins 22. mínútur en þá hafði Eyþór Helgi Birgisson skorað þrennu. Staðan var 0-4 í hálfleik eftir að Aron Freyr Margeirsson hafði skorað undir lok fyrri hálfleiks. Árni Páll Hafþórsson og Magnús Helgi Sigurðsson bættu við mörkum fyrir Árborg í seinni hálfleik en Léttismenn klóruðu í bakkann í lokin og lokatölur urðu 1-6. Árborg fór þar með upp í toppsæti riðilsins með 9 stig.
Á Selfossvelli mættust Ægir og Kári í B-deildinni í dag. Káramenn voru mun sterkari í leiknum og sigruðu 0-4. Þar með tryggði Kári sér sigurinn í riðlinum en Ægir er í 5. sæti með 3 stig.
Í gærkvöldi mættust KFR og ÍH í C-deildinni á Selfossvelli. Przemyslaw Bielawski kom KFR yfir strax á 2. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik. ÍH var hins vegar sterkari aðilinn í seinni hálfleik og skoraði þrjú mörk, þannig að lokatölur urðu 1-3. Sigurinn kom ÍH á toppinn á riðlinum með 9 stig en KFR hefur 6 stig í 2. sæti.