Knattspyrnufélag Árborgar er komið með annan fótinn í undanúrslit C-deildar Lengjubikars karla í knattspyrnu eftir 5-1 sigur á KÁ í uppgjöri toppliða riðilsins á Selfossvelli í kvöld.
Þorsteinn Daníel Þorsteinsson kom Árborg yfir með glæsimarki á 16. mínútu og Aron Freyr Margeirsson og Kristinn Ásgeir Þorbergsson skoruðu svo sitthvort markið með mínútu millibili um miðjan fyrri hálfleikinn.
Seinni hálfleikurinn var markalaus lengst af en á síðasta korterinu dró til tíðinda. KÁ minnkaði muninn í 3-1 en það var fyrsta markið sem Árborg fær á sig í keppninni. Árborgarar voru hins vegar sterkir á lokakaflanum og Kristinn Ásgeir og Sigurður Óli Guðjónsson bættu við mörkum á lokamínútunum.
Árborg er með 9 stig í efsta sæti riðilsins og betra markahlutfall en KÁ sem er með 9 stig í 2. sæti og hefur lokið keppni. Árborg mætir KB í lokaumferð riðilsins næstkomandi föstudag.