Árborg með risasigur – Öruggt hjá Hamri

Aron Darri Auðunsson telur mörkin sín, bakkaður upp af Kristni Ásgeiri Þorbergssyni sem skoraði einnig þrennu. Sveinn Kristinn Símonarson reynir að ná símasambandi við sóknardúettinn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg og Hamar unnu örugga sigra í sínum leikjum í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Árborg skoraði níu mörk gegn Kríu.

Leikur Árborgar og Kríu fór rólega af stað á gervigrasinu á Selfossi. Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Elvar Orri Sigurbjörnsson og Kristinn Ásgeir Þorbergsson komu boltanum í netið fyrir Árborg og staðan var 2-0 í hálfleik.

Upphafsmínútur seinni hálfleiks voru ótrúlegar þar sem Árborg skoraði fimm mörk á þrettán mínútna kafla. Kristinn Ásgeir kom Árborg í 3-0 áður en Aron Darri Auðunsson skoraði þrennu á sjö mínútum og Elvar Orri bætti sjöunda marki Árborgar við í kjölfarið. Fjórum mínútum síðar fékk Kría vítaspyrnu og minnkaði muninn í 7-1 en Árborg átti síðasta orðið og Andrés Karl Guðjónsson skoraði áttunda mark Árborgar áður en Kristinn Ásgeir kórónaði þrennu sína og tryggði Árborg 9-1 sigur.

Hamar átti seinni hálfleikinn
Í Borgarnesi mættust Skallagrímur og Hamar. Leikurinn var markalaus í fyrri hálfleik en í seinni hálfleiknum létu Hamarsmenn til sín taka. Rodrigo Depetris braut ísinn og um miðjan seinni hálfleikinn bættu Guido Rancez og Máni Snær Benediktsson við mörkum með stuttu millibili og Hamar sigraði 3-0.

Staðan í deildinni er þannig að Árborg er í 3. sæti með 25 stig og Hamar í 4. sæti með 23 stig. Ýmir er á toppnum með 29 stig og Tindastóll í 2. sæti með 28 stig.

Fyrri greinHleðslugarður GTS opnar í september
Næsta greinFramkvæmdir að hefjast við nýjan gervigrasvöll á Hellu