KFR tapaði gegn Vestra í B-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í kvöld en í C-deildinni gerði Árborg jafntefli við Mídas.
Á Leiknisvelli lentu Rangæingar 2-0 undir á fyrstu fimm mínútum leiksins en fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik. Vestri bætti svo þriðja markinu við þegar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum og lokatölur urðu 3-0. KFR er í botnsæti síns riðils og hefur ekki unnið leik.
Árborg tók á móti Mídasi á Selfossvelli og sá leikur var markalaus allt fram á 67. mínútu að Mídas komst yfir. Árborgarar sóttu stíft í lokin og uppskáru jöfnunarmark á 85. mínútu. Þar var að verki Arilíus Óskarsson. Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur 1-1. Árborg er í 3. sæti síns riðils með 6 stig.