Árborg náði í stig í Vogunum

Árborg og Þróttur Vogum skildu jöfn 2-2 þegar liðin mættust á Vogabæjarvelli í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Árborgarar voru sterkari í fyrri hálfleik en náðu ekki að nýta góð færi sem þeir fengu og fyrstu 45 mínúturnar voru markalausar, 0-0 í hálfleik.

Þegar fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik fengu heimamenn vítaspyrnu eftir að Arnar Freyr Óskarsson hafði tekið boltann á brjóstkassann innan teigs en dómarinn dæmdi hendi á hann. Þróttarar skoruðu úr spyrnunni og bættu svo við öðru marki fimm mínútum síðar eftir mistök í vörn Árborgar.

Árborgarar lögðu þó ekki árar í bát heldur héldu áfram að spila sinn bolta. Það bar árangur á 64. mínútu þegar Hartmann Antonsson skoraði stórglæsilegt mark og rúmum tíu mínútum síðar jafnaði Tómas Kjartansson metin með fallegu marki eftir þunga sókn Árborgar, 2-2.

Snorri Sigurðsson var nálægt því að tryggja Árborg sigurinn í blálokin þegar hann átti þrumuskot alveg út við stöng en markvörður heimamanna kom til bjargar og slæmdi fingurgómunum í boltann.

Guðjón Bjarni Hálfdánarson, þjálfari Árborgar, tók út leikbann í leiknum en aðstoðarþjálfarinn Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir stýrði liðinu. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is er þetta í annað sinn sem kona stýrir meistaraflokksliði karla í deildarleik en Vanda Sigurgeirsdóttir þjálfaði Neista á Hofsósi árið 2001.

Árborg er í 6. sæti D-riðils með sjö stig en liðið leikur næst gegn Mána á heimavelli á sunnudaginn kl. 17.

Fyrri greinSelfyssingar niðurlægðir á heimavelli
Næsta greinDIY Iittala borð