Árborg og Ægir unnu örugga sigra

Kristinn Ásgeir Þorbergsson skoraði tvisvar fyrir Árborg. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg vann góðan sigur á Ými í B-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í gærkvöldi og Ægismenn gerðu góða ferð á Akranes í sama riðli og sigruðu Víking Ólafsvík.

Árborgarar byrjuðu af krafti gegn Ými og voru komnir í 0-2 eftir tíu mínútur. Ýmismenn skoruðu sjálfsmark á 7. mínútu og þremur mínútum síðar skoraði Kristinn Ásgeir Þorbergsson. Ýmir missti mann af velli með rautt spjald á 17. mínútu og Árborg innsiglaði sigurinn með tveimur mörkum undir lok fyrri hálfleiks.

Á 38. mínútu skoraði Sveinn Kristinn Símonarson og á þeirri 43. var Kristinn Ásgeir aftur á ferðinni með mark af vítapunktinum. Seinni hálfleikur var markalaus og Árborg sigraði 0-4.

Á Akranesi hélt Jordan Adeyemo áfram að raða inn mörkum fyrir Ægi. Hann skoraði tvívegis í fyrri hálfleik gegn Ólafs-Víkingum og staðan var 0-2 í hálfleik. Aron Fannar Hreinsson kom Ægi í 0-3 á 60. mínútu en Víkingar náðu að klóra í bakkann á lokakaflanum og lokatölur urðu 1-3.

Ægismenn eru í góðum málum á toppi riðilsins með 9 stig og mæta næst Víði í úrslitaleik um sigur í riðlinum. Árborg er í 5. sæti með 3 stig.

Fyrri greinReynisfjöru lokað: Sjór gengur langt inn á land
Næsta greinHamar/Þór skellti Tindastól