Heil umferð fór fram í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Árborg og Hamar sigruðu í sínum leikjum en Uppsveitir biðu lægri hlut, eftir að hafa náð tveggja marka forystu.
Árborg og KH er spáð velgengni í deildinni í sumar og þau mættust í hörkuleik á Selfossi í kvöld. Bæði lið spiluðu af krafti og léku vel, bæði í vörn og sókn. Staðan var 0-0 í hálfleik og fjölmörg færi höfðu farið í súginn áður en Ingi Rafn Ingibergsson braut ísinn á 70. mínútu, nýkominn inná sem varamaður. Ingi Rafn tvöfaldaði svo forskot Árborgar á 80. mínútu með marki úr vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Kristni Sölva Sigurgeirssyni í vítateignum. KH sótti stíft á lokamínútunum en Árborgarvörnin hélt og lokatölur urðu 2-0. Árborg er með 6 stig á toppi deildarinnar.
Hamar heimsótti Álftanes á Bessastaðavöll og var leikurinn markalaus í fyrri hálfleik. Heimamenn komust yfir í upphafi seinni hálfleiks með marki frá Magnúsi Ársælssyni en Hvergerðingar voru sterkari á lokakaflanum og skoruðu tvívegis. Unnar Magnússon jafnaði á 72. mínútu og Guido Rancez skoraði síðan sjö mínútum fyrir leikslok og tryggði Hamri 1-2 sigur. Hamarsmenn eru með fullt hús stiga eftir tvær umferðir, eins og Árborg en liðin mætast í Hveragerði í næstu umferð.
Það voru miklar sveiflur í leik KH og Uppsveita á Ásvöllum í Hafnarfirði. Helgi Valdimar Sigurðsson kom Uppsveitum yfir strax á 5. mínútu og á lokamínútu fyrri hálfleiks tvöfaldaði Víkingur Freyr Erlingsson forystuna með marki beint úr aukaspyrnu. Adam Grétarsson minnkaði muninn fyrir KÁ í upphafi seinni hálfleiks og staðan var 1-2 allt þar til tíu mínútur voru eftir. Þá fór allt í skrúfuna hjá Uppsveitamönnum. KÁ fékk vítaspyrnu á 81. mínútu sem Uppsveitamenn voru mjög ósáttir við. Alexander Snær Einarsson skoraði úr spyrnunni og hann var svo aftur á ferðinni á 89. mínútu og breytti stöðunni í 3-2. Gunnar Már Þórðarson tryggði svo KÁ 4-2 sigur á sjöttu mínútu uppbótartímans.
Önnur úrslit í 2. umferð 4. deildarinnar:
Vængir Júpíters 3 – 1 Tindastóll
1-0 Patrekur Viktor Jónsson (’49)
2-0 Anton Örth (sjálfsmark ’54)
2-1 Max Selden (’65)
3-1 Jónas Breki Svavarsson (’71)
Skallagrímur 0 – 2 KFK
0-1 Andri Jónasson (’23)
0-2 Hlöðver Már Pétursson (sjálfsmark ’28)