Árborg og Hamar unnu mikilvæga sigra í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld en KFR, Stokkseyri og ÍBU töpuðu öll sínum leikjum.
Árborg – Hvíti riddarinn 3-1
Árborg var sterkari aðilinn framan af gegn Hvíta riddaranum og Aron Freyr Margeirsson kom Árborg yfir með marki úr vítaspyrnu á 18. mínútu. Staðan var 1-0 í hálfleik en Árborg fékk aftur víti á 65. mínútu sem Ingi Rafn Ingibergsson nýtti – reyndar í annarri tilraun. Hvíti riddarinn minnkaði muninn á 72. mínútu og sótti hart að Árborg á lokakaflanum. Daníel Ingi Birgisson losaði hins vegar pressuna af Árborg með góðu marki í uppbótartímanum og lokatölur urðu 3-1.
Hamar – Ísbjörninn 3-1
Hvergerðingar byrjuðu vel gegn toppliði Ísbjarnarins á Grýluvelli. Logi Geir Þorláksson, Ingþór Björgvinsson og Bjarki Rúnar Jónínuson skoruðu allir í fyrri hálfleik og staðan var 3-0 í leikhléi. Ísbjörninn skoraði eina mark seinni hálfleiks á 53. mínútu af vítapunktinum. Þar við sat og Hvergerðingar sigldu sigrinum örugglega heim, 3-1.
KFR – Björninn 0-0
KFR og Björninn mættust á Hvolsvelli í fjörugum leik, en markalausum. Hvorugu liðinu tókst að koma knettinum í netið og lokatölur urðu 0-0.
SR – Stokkseyri 6-2
Það var mun meira skorað á Þróttarvelli í kvöld þar sem Stokkseyri heimsótti Skautafélag Reykjavíkur. SR komst yfir á 16. mínútu en Trausti Eiríksson jafnaði fyrir Stokkseyri á 40. mínútu. SR komst aftur yfir fyrir leikhlé og staðan var 2-1 í hálfleik. Skautafélagið bætti svo við þremur mörkum á fyrsta korterinu í seinni hálfleiknum en Alfredo Sanabria minnkaði muninn á 83. mínútu. Það var hins vegar SR sem átti lokaorðið á 89. mínútu og lokatölur leiksins urðu 6-2.
GG – Uppsveitir 4-1
Leikur ÍBU og GG í Grindavík í kvöld var markalaus þar til á 34. mínútu að GG komst yfir og leiddi 1-0 í hálfleik. Heimamenn voru mun sterkari í síðari hálfleik og skoruðu þrjú mörk til viðbótar áður en seinni hálfleikurinn var hálfnaður. Máni Snær Benediktsson klóraði í bakkann fyrir ÍBU með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma og lokatölur urðu 4-1.
Árborg, KFR og Hamar í toppbaráttu
Staðan í A-riðlinum er þannig að Uppsveitir eru í 5. sæti með 6 stig, í B-riðlinum er KFR í 2. sæti með 8 stig en Stokkseyri í 5. sæti með 4 stig, Hamar er í 2. sæti C-riðils með 12 stig og Árborg er í 2. sæti D-riðils með 10 stig.