Árborg vann óvæntan útisigur á Berserkjum og Hamar öruggan heimasigur á Kóngunum þegar sunnlensku liðin hófu keppni í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Árborg mætti Berserkjum á útivelli en Berserkjum er spáð sigri í A-riðlinum og Árborg hefur aldrei tekist að leggja liðið að velli – fyrr en í kvöld. Magnús Helgi Sigurðsson, Snorri Sigurðarson og Páll Óli Ólason skoruðu mörk Árborgar í 2-3 sigri. Staðan var 1-1 í hálfleik. Lokakaflinn var dramatískur en Páll Óli skoraði sigurmark Árborgar á sjöundu mínútu uppbótartíma.
Hamar vann öruggan sigur á Kóngunum á Grýluvelli. Páll Pálmason skoraði tvívegis í fyrri hálfleik og Tómas Aron Tómasson bætti einu marki við þannig að staðan var 3-0 í hálfleik. Hvergerðingar innsigluðu svo 5-0 sigur á síðustu sjö mínútum leiksins með mörkum frá Kristni Runólfssyni og Tómasi Hassing.
Á morgun tekur Stokkseyri á móti Mídasi á Stokkseyrarvelli.