Árborg og Hrunamenn töpuðu sínum leikjum í kvöld þegar keppni hófst í C-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu.
Árborg fékk Ými í heimsókn á Selfossvöll og var undir í baráttunni allan leikinn. Ýmismenn komust yfir strax á 3. mínútu og staðan var 0-1 í hálfleik, en fátt var um færi í fyrri hálfleiknum.
Heimamenn komust aðeins betur inn í leikinn í seinni hálfleiknum en Ýmismenn komust þrátt fyrir það í 0-2 á 73. mínútu með marki úr skyndisókn. Daníel Ingi Birgisson minnkaði muninn fyrir Árborg á 88. mínútu en Ýmismenn ráku smiðshöggið á 1-3 sigur á 2. mínútu uppbótartíma.
Hrunamenn léku sinn fyrsta leik í sögunni í meistaraflokki á Íslandsmóti þegar þeir heimsóttu Létti á ÍR-völlinn í kvöld. Léttir komst yfir á 8. mínútu en Guðmundur Karl Eiríksson jafnaði metin rúmum tíu mínútum síðar. Léttismenn skoruðu aftur mínútu fyrir leikhlé og leiddu 2-1 í hálfleik. Léttir var sterkari í seinni hálfleik og bættu heimamenn við tveimur mörkum, lokatölur 4-1.