Árborg og KFR hófu keppni í C-deild Lengjubikarsins í knattspyrnu í dag. Bæði liðin sigruðu í sínum leikjum.
Árborg fékk Vatnaliljurnar, sem eru nýliðar í 4. deildinni, í heimsókn og vann Árborg öruggan 5-0 sigur. Ársæll Jónsson skoraði tvö mörk fyrir Árborg og þeir Páll Óli Ólason, Eiríkur Raphael Elvy og Hartmann Antonsson skoruðu allir eitt mark.
KFR var undir nánast allan leikinn gegn Snæfelli/Geislanum en liðin mættust á Leiknisvellinum. Snæfell/Geislinn komst yfir strax á 8. mínútu og vörðust vel eftir það. Það var ekki fyrr en á 79. mínútu að Guðmundur Garðar Sigfússon jafnaði metin fyrir KFR og Rangæingar létu kné fylgja kviði og bættu við tveimur mörkum á næstu sex mínútum. Snæfell/Geislinn klóraði í bakkann tveimur mínútum fyrir leikslok. Lokatölur 3-2 fyrir KFR.