Árborg og KFR töpuðu

Árborg og KFR töpuðu leikjum sínum í Lengjubikar karla í knattspyrnu í dag.

Árborg heimsótti ÍH í B-deildinni á Ásvöllum og þar voru heimamenn mun líflegri í fyrri hálfleik. ÍH komst yfir um miðjan fyrri hálfleik og staðan var 1-0 í hálfleik en bæði lið höfðu fengið góð færi og bæði bjargað á línu.

ÍH komst í 3-0 í seinni hálfleik áður en kviknaði almennilega á Árborgarliðinu. Guðmundur Garðar Sigfússon minnkaði muninn í 3-1 en ÍH skoraði strax fjórða markið. Guðmundur Garðar skoraði lokamark leiksins á síðustu mínútunum. Hann hafði nefbrotnað fyrr í leiknum en harkaði af sér og fór mikinn í sókninni undir lokin. Lokatölur 4-2.

KFR og Sindri áttust við í hörkuleik í C-deildinni á Selfossvelli. Jafnræði var með liðunum allan tímann, Reynir Björgvinsson kom KFR yfir snemma leiks en Sindramenn svöruðu með tveimur mörkum. Reynir skoraði aftur undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 2-2 í hálfleik.

Sindri komst yfir í upphafi síðari hálfleiks en Reynir kórónaði þrennuna og jafnaði leikinn aftur. Dramatíkin var mikil á lokakaflanum en sigurmark Sindra kom í uppbótartíma. Áður hafði Jóhann Gunnar Böðvarsson fengið sitt annað gula spjald og þar með rautt þannig að Rangæingar luku leik einum manni færri og lokatölur leiksins voru 3-4.

Fyrri greinLést í bílslysi
Næsta greinLars og Ragnheiður heiðruð