Árborg og KFR unnu örugga sigra í C-deild deildarbikars karla í knattspyrnu í dag en Hamar tapaði sínum leik.
Árborg tók á móti toppliði RB á Selfossvelli og þar kom Aron Freyr Margeirsson Árborg yfir á 9. mínútu. RB jafnaði metin um miðjan fyrri hálfleikinn en rétt fyrir leikhlé fengu Árborgarar vítaspyrnu og úr henni skoraði fyrirliðinn Þorsteinn Daníel Þorsteinsson. Árborgarar léku á als oddi í seinni hálfleiknum og sóttu stíft að marki RB. Kristinn Sölvi Sigurgeirsson skoraði á 49. mínútu og fimm mínútum síðar bætti Kristinn Ásgeir Þorbergsson við marki. Kristinn Sölvi var svo aftur á ferðinni á 70. mínútu og tryggði Árborg 5-1 sigur.
KFR heimsótti Smára í Fagralund í Kópavogi. Aron Birkir Guðmundsson skoraði á upphafsmínútunum og Heiðar Óli Guðmundsson bætti við marki á 21. mínútu. Staðan var 0-2 í hálfleik en það var fljótt að breytast í seinni hálfleiknum því Heiðar Óli og Rúnar Þorvaldsson skoruðu báðir á fyrsta korterinu. Bjarni Þorvaldsson kom KFR í 0-5 um miðjan seinni hálfleikinn en Smáramenn fengu sárabótarmark á lokamínútunni og úrslit leiksins urðu 1-5.
Á Víkingsvelli í Fossvogi tók Mídas á móti Hamri í hörkuleik. Mídas komst yfir á 18. mínútu og Hamarsmenn urðu fyrir því óláni að skora sjálfsmark undir lok fyrri hálfleiks svo staðan var 2-0 í leikhléinu. Mídasarmenn bættu við sjálfsmarki í upphafi seinni hálfleiks en skoruðu svo í rétt mark þremur mínútum síðar og staðan orðin 3-1. Rodrigo Depetris klóraði í bakkann fyrir Hamar í uppbótartímanum og lokatölur urðu 3-2.
Staðan í riðli-3 er hnífjöfn; Árborg og KFR hafa 7 stig en Árborgarar eru í toppsætinu með betra markahlutfall. Í riðli-2 er Hamar í 4. sæti, án stiga.