Árborg og Macron klæddu Suðra upp fyrir Malmö Open

Fulltrúar Suðra og Árborgar þegar búningarnir voru afhentir nú í vikunni. Ljósmynd/Eiríkur Sigmarsson

Knattspyrnumenn úr Suðra á Selfossi halda til Svíþjóðar um helgina og keppa á Malmö Open.

Undanfarnar vikur hefur Suðri staðið fyrir ýmsum fjáröflunum fyrir keppnisferðina og meðal annars styrktu strákarnir í Knattspyrnufélagi Árborgar liðið um 180 þúsund krónur sem kom úr sektarsjóði leikmanna og stjórnar félagsins.

Árborg og Macron tóku sig svo saman og útveguðu Suðraliðinu keppnisfatnað fyrir ferðina en Knattspyrnufélag Árborgar spilar einmitt í búningum frá Macron. Búningarnir voru svo afhentir fyrr í þessari viku. Sex iðkendur frá Suðra fara á mótið, ásamt jafn mörgum fylgdarmönnum.

„Margir af leikmönnum Suðra eru okkar dyggustu stuðningsmenn og það var það aldrei spurning um annað en að styrkja þetta frábæra fólk fyrir komandi átök í Malmö. Við í Knattspyrnufélagi Árborgar sendum baráttu kveðjur og óskum Suðra góðs gengis á mótinu,“ sagði Eiríkur Sigmarsson, fjölmiðlafulltrúi Knattspyrnufélags Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.

Suðramennirnir Matthías Máni, Jón Ingi og Matthías ásamt Þórdísi Hansen, þjálfara liðsins. Ljósmynd/Eiríkur Sigmarsson
Fyrri greinFrosti skoraði þrennu í tíu marka jafntefli
Næsta greinSSK skorar á stjórnvöld að tryggja örugga læknisþjónustu