Árborg og Stokkseyri fengu skell

Árborg og Stokkseyri töpuðu stórt í leikjum sínum í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Árborg heimsótti Álftanes á Bessastaðavöll og fékk vægast sagt háðulega útreið. Guðmundur Sigurðsson kom Árborg í 0-1 með marki úr vítaspyrnu á 10. mínútu en forysta Árborgara varði aðeins í tvær mínútur. Álftanes jafnaði þá metin úr vítaspyrnu og heimamenn bættu svo við þremur mörkum áður en hálfleiksflautan gall. Fimmta mark Álftaness kom í upphafi síðari hálfleiks og tvö til viðbótar undir lokin. Niðurstaðan varð því 7-1 sigur Álftaness og fara úrslitin í flokk með stærstu töpum Árborgar en liðið tapaði 7-1 fyrir KFS árið 2001 og 6-0 fyrir Völsungi árið 2010.

Stokkseyringar fengu topplið KFG í heimsókn og þar skoruðu gestirnir tvö mörk í fyrri hálfleik. Staðan var orðin 0-4 þegar Atli Rafn Viðarsson minnkaði muninn fyrir Stokkseyringa en KFG bætti fimmta markinu við undir lokin og úrslitin urðu 1-5.

Árborg er í 6. sæti riðilsins með 16 stig en Stokkseyri í 8. sæti með 3 stig. Liðin mætast innbyrðis í lokaumferð deildarinnar um næstu helgi.

Fyrri greinSkilmálar Kínverjanna óviðunandi
Næsta greinTindastóll jafnaði með síðustu snertingu leiksins