Árborg og Stokkseyri töpuðu sínum leikjum í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Árborg fékk Kríu í heimsókn en Stokkseyri lék gegn Augnabliki á útivelli.
Leikur Árborgar og Kríu var jafn í fyrri hálfleik en Árborgarar fengu betri færi án þess að takast að skora úr opnum leik. Á 22. mínútu var brotið á Trausta Eiríkssyni í vítateig Kríu og Eiríkur Elvy fór á vítapunktinn og skoraði, 1-0 í hálfleik.
Kría lék með vindinn í bakið í síðari hálfleik og stjórnaði leiknum nánast allan hálfleikinn. Færin voru þó ekki mörg framan af en síðustu tuttugu mínúturnar opnaðist leikurinn nokkuð. Árborg átti að fá vítaspyrnu um miðjan síðari hálfleikinn þegar aftur var brotið á Trausta en dómarinn kyngdi flautunni og dæmdi ekkert.
Á 70. mínútu komust gestirnir yfir með skallamarki eftir aukaspyrnu og þegar leið að lokum lágu Kríupiltar þungt á vörn Árborgar. Sigurmarkið kom á annarri mínútu uppbótartíma, aftur skalli eftir fast leikatriði, og skömmu síðar var leikurinn flautaður af. Lokatölur 1-2.
Stokkseyri mætti Augnabliki á Versalavelli í Kópavogi og þar kom eina mark leiksins á 36. mínútu. Heimamenn voru ívið sterkari aðilinn í leiknum en fátt var um færi á báða bóga. Stokkseyringar fengu tvö prýðisfæri í síðari hálfleik, Þórhallur Aron Másson átti frábært skot utan teigs sem markvörður Augnabliks varði vel og Atli Rafn Viðarsson slapp einn innfyrir en aftur kom markvörður Augnablika til bjargar. Lokatölur urðu 1-0.
Árborg er í 6. sæti D-riðils með 6 stig en Stokkseyri er í 7. sæti B-riðils með 6 stig.