Árborg sigraði í níu marka grannaslag

Jökull Hermannsson og Ísak Leó Guðmundsson glíma við markaskorarann Jordan Adeyemo. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg sigraði Ægi 5-4 í mögnuðum knattspyrnuleik á Selfossvelli í kvöld í lokaumferð B-deildar Lengjudeildar karla.

Ægismenn þurftu á sigri að halda til þess að eiga möguleika á sæti í úrslitakeppninni en tapið þýðir að Víðir sigrar riðilinn og fer í úrslit.

Árborg byrjaði leikinn af krafti og Kristinn Ásgeir Þorbergsson var búinn að skora tvisvar sinnum úr skyndisóknum eftir fimmtán mínútna leik. Tíu mínútum síðar minnkaði Jordan Adeyemo muninn fyrir Ægi þegar hann skoraði af harðfylgi með skoti úr vítateignum. Árborg átti hins vegar lokaorðið í fyrri hálfleik og Aron Freyr Margeirsson kom þeim í 3-1 á 35. mínútu.

Það var allt í járnum í upphafi seinni hálfleik en síðan tóku Ægismenn leikinn yfir og þeir náðu að skora þrjú mörk á tveimur mínútum og breyta stöðunni í 3-4. Ísak Leó Guðmundsson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 59. mínútu og tveimur mínútum síðar höfðu bæði Jordan Adeyemo og Aron Daníel Arnalds sett boltann í netið.

Árborgarar tóku sig saman í andlitinu eftir þetta og voru sterkari á lokakaflanum. Þormar Elvarsson jafnaði metin á 68. mínútu og korteri fyrir leikslok skoraði Aron Freyr sitt annað mark og tryggði Árborg 5-4 sigur.

Keppni í riðli-2 er ekki lokið en sem stendur er Ægir í 2. sæti riðilsins með 9 stig en Árborg í 4. sætinu með 6 stig.

Fyrri greinDímon/Hekla héraðsmeistari kvenna í blaki
Næsta greinMatthías ráðinn fjármálastjóri Set