Árborg vann stórsigur á Stokkseyri þegar liðin mættust á Stokkseyrarvelli í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur urðu 1-8.
Leikurinn byrjaði fjörlega og Árborgarar ógnuðu verulega með strekkingsvind í bakið. Ísinn brotnaði þó ekki fyrr en á 14. mínútu þegar boltinn barst út úr vítateig Stokkseyrar á Daníel Inga Birgisson sem lét vaða framhjá Eyþóri Gunnarssyni í marki Stokkseyrar.
Árborg stýrði leiknum í fyrri hálfleik og á 25. mínútu skoraði Tómas Kjartansson eftir þunga sókn þegar hann fékk boltann í teignum frá Magnúsi Helga Sigurðssyni. Tveimur mínútum síðar fékk Jón Lárus Sigurðsson gott færi hinu megin á vellinum en Einar Guðni Guðjónsson varði vel. Þetta var eina alvöru færi Stokkseyringa í fyrri hálfleik.
Á 29. mínútu kom Magnús Helgi Árborg svo í 0-3 þegar hann skoraði örugglega af stuttu færi eftir hornspyrnu.
Staðan var 0-3 í hálfleik og Stokkseyringar hugsuðu sér eflaust gott til glóðarinnar, verandi með sterkan vind í bakið í seinni hálfleik. Þær vonir urðu þó snemma að engu því Árborg bætti við tveimur mörkum á fyrstu fimm mínútum síðari hálfleiks.
Á 47. mínútu braut Gunnar Jónsson á Pálma Ásbergssyni á vítateigslínunni og dómarinn dæmdi víti. Ingimar Helgi Finnsson fór á punktinn og skoraði af öryggi. Aðeins mínútu síðar var komið að Tómasi Hassing en hann fékk glæsilega stungusendingu innfyrir frá Halldóri Stefánssyni og kláraði af færið af öryggi, 0-5.
Stokkseyringar skiptu um markmann á 60. mínútu en Eyþór Atli Finnsson leysti þá nafna sinn Gunnarsson af í markinu. Kvöldið byrjaði ekki vel fyrir Finnsson því hann missti boltann frá sér strax í næstu sókn Árborgar. Halldór náði knettinum og renndi honum á Hassing sem átti ekki í neinum vandræðum með að skora í autt markið.
En heimamenn gáfust ekki upp. Mínútu síðar hafði Þórhallur Aron Másson minnkað muninn með góðu skoti utan teigs og staðan orðin 1-6. Í kjölfarið opnaðist leikurinn nokkuð og bæði lið fengu færi á að bæta við mörkum.
Það var þó ekki fyrr en á 87. mínútu að Ísak Eldjárn Tómasson skoraði sjöunda mark Árborgar eftir hornspyrnu. Árni Páll Hafþórsson átti þá skalla að marki sem Eyþór Atli varði frábærlega en frákastið barst á Ísak sem skoraði af öryggi.
Í uppbótartíma slapp Árni Páll einn innfyrir en Alexander Kristmannsson braut á honum og rændi hann upplögðu marktækifæri. Alexander fékk rautt spjald fyrir vikið og Árborgarar aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig. Í kjölfarið sannaðist að bræður eru bræðrum verstir því Ingimar Helgi tók spyrnuna og þrumaði boltanum í bláhornið, framhjá Eyþóri bróður sínum.
Lokaflautið gall örskömmu síðar og Árborg fagnaði sigri sem hefði hæglega getað orðið stærri en liðið átti fjögur skot í tréverkið á marki Stokkseyrar í leiknum. Árborg er nú á toppi riðilsins með 6 stig en Stokkseyri er á botninum án stiga.