Árborg skoraði sex mörk

Árborgarar unnu stórsigur á liði Stál-úlfs í 3. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur á Selfossvelli voru 6-1.

Það blés ekki byrlega í upphafi hjá Árborgurum sem voru slakir í fyrri hálfleik. Gestirnir komust yfir á 8. mínútu en Halldór Áskell Stefánsson jafnaði fyrir Árborg eftir um hálftíma leik. Bæði lið fengu prýðisfæri til að bæta við mörkum í fyrri hálfleik en gestirnir voru líklegri til að skora og áttu nokkrar hættulegar skyndisóknir.

Árborgarar höfðu góð tök á leiknum í seinni hálfleik og á 56. mínútu skoraði Guðmundur Garðar Sigfússon af harðfylgi með skalla af stuttu færi. Tíu mínútum síðar jók Kjartan Atli Kjartansson muninn í 3-1.

Á 75. mínútu leiksins fengu tveir leikmenn Stál-úlfs að líta rauða spjaldið, sá fyrri fyrir brot og hinn síðari þegar hann kvartaði yfir rauða spjaldi félaga síns með miður góðu orðbragði.

Í kjölfarið komu hörmulegar mínútur hjá Árborg þar sem níu Stál-úlfar voru síður slakari. Flóðgáttirnar brustu þó á 90. mínútu þegar varamaðurinn Lárus Hrafn Hallsson skoraði fjórða mark Árborgar og á næstu mínútum bættu Kjartan og Lárus við tveimur mörkum en þeir félagar hefðu báðir hæglega getað fullkomnað þrennuna á lokakaflanum.

Með sigrinum fór Árborg upp í 2. sæti riðilsins með 5 stig.

Fyrri greinKFR missti af stigi í lokin
Næsta greinFullkomin þrenna hjá Inga Rafni