Árborg skoraði átta – KFR vann nauðsynlegan sigur

Aron Freyr og Kristinn Sölvi fagna marki þess fyrrnefnda. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Árborgar er komið með annan fótinn í úrslitakeppni C-deildar deildarbikars karla í knattspyrnu eftir stórsigur gegn Skautafélagi Reykjavíkur í dag. KFR sigraði einnig sinn leik og er eina liðið sem getur skákað Árborg.

Leikur Árborgar og SR á Selfossvelli fór fjörlega af stað og eftir átján mínútur var staðan orðin 3-2. Adam Örn Sveinbjörnsson kom Árborg yfir strax á 6. mínútu og tveimur mínútum síðar skoraði Kristinn Sölvi Sigurgeirsson. Kristinn Ásgeir Þorbergsson kom Árborg í 3-0 á 14. mínútu en SR minnkaði muninn strax með tveimur mörkum á næstu fjórum mínútum. Eftir hálftíma leik fór allt á fullt hjá heimamönnum sem skoruðu þrjú mörk á fjórum mínútum en þar voru á ferðinni Þorsteinn Daníel Þorsteinsson, Kristinn Sölvi og Kristinn Ásgeir. Staðan var 6-2 í hálfleik en seinni hálfleikurinn var mun rólegri. Árborg bætti við tveimur mörkum á síðustu tuttugu mínútunum og þar voru á ferðinni þeir Aron Freyr Margeirsson og Ævar Már Viktorsson. Lokatölur 8-2.

Bjarni skoraði sigurmarkið
KFR heimsótti RB í Reykjanesbæ í hörkuleik. Stefán Bjarki Smárason kom KFR yfir á 34. mínútu og staðan var 0-1 í hálfleik. RB jafnaði í upphafi seinni hálfleiks en Helgi Valur Smárason kom Rangæingum aftur yfir á 62. mínútu. Sú forysta varði aðeins í sex mínútur því RB jafnaði jafnharðan. Það var hins vegar KFR sem átti síðasta orðið og Bjarni Rúnarsson skoraði sigurmarkið tíu mínútum fyrir leikslok.

Staðan í riðlinum er þannig að Árborg er í toppsætinu með 13 stig og hefur lokið keppni. KFR er í 2. sæti með 10 stig og er eina liðið sem getur náð Árborg að stigum. KFR á til góða leik gegn botnliði Léttis en Rangæingar þurfa að vinna þann leik með sextán marka mun, ætli þeir sér að ná toppsætinu af nágrönnum sínum.

Fyrri greinAlvarlegt hestaslys í Bláskógabyggð
Næsta greinGísli Freyr valinn söngvari Músiktilrauna