Knattspyrnufélag Árborgar tyllti sér aftur í 2. sæti A-riðils 4. deildar karla í knattspyrnu með stórsigri á Berserkjum á Selfossvelli í kvöld, 9-1.
Veislan hófst strax á 4. mínútu þegar Aron Freyr Margeirsson kom Árborg yfir og á eftir fylgdu mörk frá Magnúsi Hilmari Viktorssyni og Hauki Inga Gunnarssyni. Birkir Pétursson skoraði svo glæsilegt mark á 41. mínútu og staðan var orðin 4-0 í hálfleik.
Magnús Ingi Einarsson opnaði seinni hálfleikinn með tveimur mörkum og hann fiskaði svo vítaspyrnu á 69. mínútu og úr henni skoraði Ingi Rafn Ingibergsson. Aðeins mínútu síðar skoraði leikmaður Berserkja sjálfsmark eftir stórbrotna fyrirgjöf Óttars Guðlaugssonar.
Magnús Hilmar skoraði níunda mark Árborgar þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum en gestirnir úr Fossvoginum klóruðu í bakkann á 89. mínútu og lokatölur urðu 9-1.
Árborg hefur 10 stig í 2. sæti riðilsins en Berserkir eru í 5. sæti með 6 stig.