Knattspyrnufélag Árborgar vann öruggan sigur á Mídasi í D-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld, þegar liðin mættust á Víkingsvellinum.
Magnús Hilmar Viktorsson kom Árborg í 0-2 á upphafsmínútum leiksins og Aron Freyr Margeirsson bætti þriðja markinu við á 26. mínútu. Daníel Ingi Birgisson skoraði fjórða markið á 35. mínútu og Aron Freyr var aftur á ferðinni á þremur mínútum síðar. Staðan var 0-5 í hálfleik eftir einstefnu að marki Mídasar.
Árborg byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og skoraði þrjú mörk á fyrstu tíu mínútunum. Aron Örn Þrastarson kom Árborg í 0-6 áður en Magnús Hilmar innsiglaði þrennu sína. Haukur Ingi Gunnarsson bætti svo áttunda marki Árborgar við á 54. mínútu.
Eftir það róuðust Árborgarar aðeins í sóknarleiknum og Mídas náði að minnka muninn í 1-8 þegar þrettán mínútur voru eftir af leiknum. Árborgararnir voru hins vegar ólmir í að fylla tuginn og það tókst þeim með mörkum frá Guðmundi Sveinssyni og Guðmundi Garðari Sigfússyni á síðustu fimm mínútum leiksins. Lokatölur 1-10.