Árborg styrkir handknattleiksdeildina vegna þátttöku í EHF-bikarnum

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga í dag. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Bæjarráð Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum að styrkja handknattleiksdeild Umf. Selfoss um 1,2 milljón króna vegna þátttöku karlaliðs Selfoss í EHF-bikarnum í handbolta.

„Um er að ræða mikið afrek hjá liðinu sem nú er komið í 3. umferð keppninnar og á möguleika á að komast fyrst íslenskra liða áfram í riðlakeppnina sem byrjar í febrúar. Þátttaka í Evrópukeppninni er hins vegar mjög kostnaðarsöm fyrir deildina og vegur ferðakostnaður þar þyngst. Engir opinberir sjóðir eða styrkir frá HSÍ eru til staðar til að sækja í og kostnaður við hverja umferð hleypur á milljónum. Það má því segja að um sé að ræða tilraunaverkefni hjá handknattleiksdeild sem alveg er óljóst hvernig tekst að leysa fjárhagslega,“ segir í fundargerð bæjarráðs sem samþykkti styrkja þessa „þátttökutilraun“ deildarinnar með sérstöku einskiptis fjárframlagi.

Sveitarfélagið hvetur jafnframt fyrirtæki og einstaklinga til að leggja hönd á plóg í þessu mikla verkefni.

Bæjarstjóra var falið að finna framlaginu stað í fjárhagsáætlun.

Bréf handknattleiksdeildarinnar var ritað hinn 4. október síðastliðinn, áður en liðið hóf þátttöku í 2. umferð keppninnar, en í dag er liðið komið í 3. umferð og er á leið til Póllands. Í bréfinu kemur fram að kostnaður við hverja umferð í keppninni sé á bilinu 2,2 til 3,5 milljónir króna og að fyrir 2. umferðina hafi róðurinn verið tekinn að þyngjast í fjáröflunum, enda hafi leikmenn og stuðningsmenn lagt mikið á sig til þess að afla fjár fyrir hluta kostnaðarins.

Fyrri greinForeldrasýning og málþing „Lof mér að falla“
Næsta greinBleika boðið á Selfossi