Árborg endurheimti toppsætið í 4. deild karla í kvöld, tímabundið í það minnsta, með stórsigri á KÁ á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld.
Fyrir leikinn voru liðin í 2. og 4. sæti deildarinnar þannig að sigur Árborgar breikkaði bilið á toppnum talsvert en ásamt Árborg eru Vængir Júpíters og KFK að bítast um efstu sætin þegar mótið er rétt hálfnað.
Árborg fékk vítaspyrnu á 17. mínútu og úr henni skoraði Ingi Rafn Ingibergsson. Tíu mínútum síðar kom Sigurður Óli Guðjónsson Árborg í 0-2 og Þormar Elvarsson tryggði Árborg þriggja marka forskot fyrir hálfleik.
KÁ menn voru fyrri til að skora í seinni hálfleiknum, Bjarki Sigurjónsson, minnkaði muninn í 1-3 á 59. mínútu en í kjölfarið skoruðu Árborgarar tvívegis með skömmu millibili. Kristinn Ásgeir Þorbergsson breytti stöðunni í 1-4 og fimm mínútum síðar skoraði Sigurður Óli sitt annað mark og tryggði Árborg 1-5 sigur.
Staðan í deildinni er þannig að Árborg er í toppsætinu með 23 stig en KÁ er í 4. sæti með 16 stig.