Árborg tapaði á Hornafirði

Knattspyrnufélag Árborgar beið lægri hlut þegar liðið heimsótti Sindra á Hornafjörð í 3. deild karla í knattspyrnu í dag.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik, Sindramenn voru meira með boltann en Árborgarar vörðust skipulega og voru hættulegir fram á við í skyndisóknum. Boltinn hafnaði í stöng Árborgarmarksins undir lok fyrri hálfleiks, eftir hornspyrnu en staðan var 0-0 í hálfleik.

Strax á fimmtu mínútu síðari hálfleiks náðu heimamenn að opna vörn Árborgar og komast yfir og þeir létu kné fylgja kviði rúmum tíu mínútum síðar með öðru marki.

Þegar leið á seinni hálfleikinn bættu Sindramenn í en Árborgarar voru sprungnir á limminu og ógnuðu marki Hornfirðinga lítið.

Fyrri greinPrjónaði yfir sig og slasaðist
Næsta greinHamarshöllin risin