Árborg tapaði fyrir austan

Knattspyrnufélag Árborgar tapaði 2-1 þegar liðið mætti Fjarðabyggð á útivelli í kvöld í 2. deild karla í knattspyrnu.

Leikurinn átti að fara fram á Eskifirði en var færður inn í Fjarðabyggðahöllina á Reyðarfirði vegna veðurs. Snjókoma var á Egilsstöðum þegar Árborgarliðið lenti þar og töluverður snjór á Fagradal, leiðinni milli Egilsstaða og Reyðarfjarðar.

Guðmundur Garðar Sigfússon kom Árborg yfir um miðjan fyrri hálfleik en heimamenn jöfnuðu á lokamínútum fyrri hálfleiks.

Staðan var 1-1 í hálfleik en sigurmark heimamanna kom í upphafi seinni hálfleiks. Annars var síðari hálfleikur jafn og Árborgarliðið gerði harða hríð að marki Fjarðabyggðar á síðustu tíu mínútunum.

Árborg er nú í botnsæti deildarinnar með 3. stig en Fjarðabyggð fór í efsta sætið með 12 stig.

Fyrri greinFerðamönnum bjargað af Lakavegi
Næsta greinGóður sigur hjá Hamri