Árborg tapaði 3-2 þegar liðið heimsótti Þrótt Vogum á Vatnsleysuströndina í kvöld.
Þróttarar voru sterkari fyrstu tuttugu mínúturnar og áttu meðal annars tvö sláarskot. Eftir það komust Árborgarar inn í leikinn og bæði lið áttu hörkufæri áður en Þróttarar komust yfir á 43. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik.
Fjörið hélt áfram í síðari hálfleik og Hartmann Antonsson jafnaði fyrir Árborg eftir hornspyrnu frá Andra Orra Hreiðarssyni á 58. mínútu. Sú staða varði þó stutt því Þróttur komst aftur yfir með marki eftir skyndisókn á 60. mínútu.
Á 72. mínútu jöfnuðu Árborgarar aftur og þar var á ferðinni Guðni Þór Þorvaldsson í sínum fyrsta leik fyrir félagið. Guðni fékk sendingu innfyrir frá Guðmundi Sigurðssyni og afgreiddi boltann glæsilega í fjærhornið frá vítateigslínunni.
Síðasta korterið skiptust liðin á færum en þegar sex mínútur voru eftir skoruðu Þróttarar sigurmarkið eftir hornspyrnu. Einar Guðjónsson, markvörður Árborgar, missti boltann yfir sig og á fjærstöng lúrði einn Þróttarinn óvaldaður og skoraði.
Árborgarar voru nálægt því að jafna undir lokin þegar Ársæll Jónsson komst í dauðafæri en missti boltann of langt frá sér þegar hann var sloppinn í gegn. Lokatölur 3-2 í skemmtilegum leik.
Árborgarar hafa því endanlega stimplað sig út úr baráttunni um sæti í úrslitakeppni deildarinnar og sitja í 6. sæti A-riðils með 13 stig.