Knattspyrnufélag Árborgar beið lægri hlut, 1-2, þegar liðið tók á móti Skínanda í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í kvöld.
Gestirnir voru sprækari í fyrri hálfleik en Árborgarar voru þó fyrri til að skora. Hartmann Antonsson stangaði þá knöttinn í netið eftir hornspyrnu Guðmundar Sigurðssonar.
Skínandi jafnaði með marki úr vítaspyrnu á 23. mínútu og sigurmarkið var svo skorað með síðustu spyrnu fyrri hálfleiks eftir slæm mistök í vörn Árborgar. Í millitíðinni höfðu bæði lið fengið prýðileg færi til að bæta við mörkum.
Síðari hálfleikur var jafnari og Árborgarar sóttu nokkuð í sig veðrið þegar leið á leikinn án þess þó að ná að skora jöfnunarmark.
Þetta var fyrsti leikur Árborgar í Lengjubikarnum þetta vorið og er liðið án stiga í 3. sæti riðilsins.