Árborg tapaði á heimavelli gegn Birninum í toppslag A-riðils 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld, 1-2.
Guðmundur Garðar Sigfússon kom Árborg yfir á 8. mínútu leiksins en Bjarnarmenn jöfnuðu metin á 22. mínútu og staðan var 1-1 í leikhléi.
Björninn skoraði sigurmark leiksins á 59. mínútu en Árborgarar sóttu hart að þeim á lokakaflanum án þess að ná að jafna. Hartmann Antonsson skaut meðal annars yfir úr vítaspyrnu á lokamínútum leiksins.
Björninn hefur því tekið afgerandi forystu á toppi riðilsins með 21 stig en Árborg er í 2. sæti með 13 stig, einu stigi á undan Ými sem á leik til góða.