Knattspyrnufélag Árborgar tapaði mikilvægum stigum í toppbaráttu 4. deildar karla í knattspyrnu í dag þegar liðið heimsótti Tindastól á Sauðárkrók.
Leikurinn var jafn allan tímann en Árborgarar sköpuðu sér betri færi framan af leiknum. Eina mark leiksins leit dagsins ljós á 43. mínútu og það skoruðu heimamenn eftir snarpa sókn upp hægri kantinn.
Í seinni hálfleik var allt í járnum og fátt um færi en Árborgarar færðu sig upp á skaftið undir lokin og áttu hættulegar tilraunir eftir föst leikatriði. Allt kom fyrir ekki, Tindastóll sigraði 1-0 og tryggði sér þar með sigurinn í 4. deildinni.
Árborg og Ýmir bítast um 2. sætið í lokaumferðinni og þar er Ýmir í vænlegri stöðu. Ýmir hefur 34 stig í 2. sæti en Árborg er með 32 stig í 3. sæti. Ýmir fær Hamar í heimsókn í lokaumferðinni á meðan Árborg tekur á móti Skallagrím.