Knattspyrnufélag Árborgar tapaði 2-1 gegn GG í úrslitakeppni 4. deildar karla í knattspyrnu í Grindavík í kvöld.
Þetta var fyrri leikur liðanna í einvíginu en þau mætast aftur á Selfossi á sunnudagskvöld og munu samanlögð úrslit úr leikjunum tveimur skera úr um hvort liðið mætir Einherja í 8-liða úrslitum.
Heimamenn í GG byrjuðu betur og komust yfir snemma leiks. GG átti betri færi í fyrri hálfleik en staðan var 1-0 í leikhléi. Seinni hálfleikurinn var í járnum en á 80. mínútu jafnaði Ingi Rafn Ingibergsson með skalla eftir frábæra sendingu frá Aroni Fannari Birgissyni.
GG menn voru þó ekki hættir heldur náðu að knýja fram sigurmark á lokamínútunum, sem gæti reynst þeim dýrmætt í framhaldinu.