Knattspyrnufélag Árborgar mun leika í 2. deild karla í knattspyrnu á næsta keppnistímabili en liðið varð í 3. sæti 3. deildar í sumar. 2. deildarlið Tindastóls og Hvatar hafa sameinast.
Tindastóll og Hvöt hafa ákveðið að senda sameinað lið til keppni í 2. deild karla næsta sumar. Félögin eru bæði í 2. deild og með sameiningunni losnar sæti fyrir Árborg í deildinni. Árborg vann KB í leik um 3. sætið eftir að hafa tapað naumlega fyrir Tindastóli í leikjum um sæti í 2. deild í haust.
Í fréttatilkynningu frá Tindastól/Hvöt segir að aukið samstarf félaganna geti ekki leitt til annars en jákvæðra hluta. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is eru Árborgarar hjartanlega sammála því.