Árborg upp í efri hlutann

Árborgarar finna nú nasaþefinn af toppbaráttu A-riðils 4. deildar karla í knattspyrnu eftir 1-3 útisigur á Kóngunum.

Árborg byrjaði vel í leiknum og Magnús Helgi Sigurðsson kom liðinu yfir strax á 10. mínútu. Daníel Ingi Birgisson bætti svo öðru marki við á 37. mínútu en á lokamínútu fyrri hálfleiks klóruðu Kóngarnir í bakkann og staðan var 1-2 í hálfleik.

Hartmann Antonsson skoraði eina mark síðari hálfleiks á 57. mínútu og tryggði Árborg 1-3 sigur.

Sigurinn var Árborgurum reyndar dýrkeyptur því tveir varnarmenn leituðu læknis eftir leik. Óskar Guðjónsson ökklabrotnaði í fyrri hálfleik og er frá út tímabilið en Heiðar Karlsson fékk slæman hnykk á hálsinn og tognaði illa. Hann verður þó leikfær aftur fljótlega.

Árborg er nú með 12 stig í 5. sæti riðilsins en aðeins þrjú stig eru upp í KFS í 2. sæti riðilsins.

Fyrri greinEldur í vöruskemmu hjá MS
Næsta greinHreppurinn sér um akstur frá Árnesi