Lið Knattspyrnufélags Árborgar er úr leik í Coca-Colabikar karla í handbolta eftir tap gegn 1. deildarliði Íþróttafélags Hafnarfjarðar um síðustu helgi.
Árborg leikur í utandeildinni og reyndist 1. deildarlið ÍH of stór biti fyrir heimamenn þegar liðin mættust í Vallaskóla á sunnudagskvöldið. Gestirnir leiddu 10-17 í hálfleik en lokatölur leiksins urðu 21-38.
Aron Valur Leifsson var markahæstur Árborgara með 6/2 mörk, Atli Marel Vokes skoraði 4, Reynir Freyr Jakobsson og Gísli Örn Þórisson skoruðu báðir 3 mörk, Ingvi Tryggvason 2 og þeir Eyþór Jónsson, Guðmundur Garðar Sigfússon og Birgir Örn Harðarson skoruðu allir eitt mark.
Jóhann Árnason varði 9 skot í marki Árborgar og Davíð Adamsson 8.
Þetta er besti árangur Árborgar í bikarnum frá upphafi, en árið 2010 tapaði liðið með 19 marka mun gegn úrvalsdeildarliði HK, 17-39.
Bikarleik Harðar á Ísafirði og Selfoss, sem fara átti fram um helgina, var frestað og hefur nýr leiktími ekki verið ákveðinn.