Árborg vann stórsigur á Afríku í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur voru 8-0 eftir skrautlegan leik.
Afríka fékk fyrsta færi leiksins strax á 2. mínútu þegar boltinn fór framhjá marki Árborgar eftir skyndisókn. Þetta var reyndar eina umtalsverða færi Afríkuliðsins í leiknum en Einar Guðni Guðjónsson, markvörður Árborgar, átti frekar náðugan dag og allir boltar sem fóru á rammann höfnuðu í hönskunum hjá Einari.
Árborg tók fljótlega öll völd á vellinum og Guðni Þór Þorvaldsson óð í færum í upphafi leiks. Markvörður Afríku varði tvívegis vel frá Guðna þegar hann slapp í gegn og auk þess átti hann stangarskot áður en ísinn brotnaði loksins.
Á 28. mínútu dró til tíðinda þegar Arnar Freyr Óskarsson braut á varnarmanni Afríku, sá fór í grasið og svaraði Arnari með því að sparka hann niður. Dómarinn gerði hið eina rétta í stöðunni og vísaði leikmanni Afríku af velli.
Nú komust Árborgarar í gírinn og fimm mínútum síðar kom Guðni Þór Árborg í 1-0 þegar hann afgreiddi fyrirgjöf frá Páli Óla Ólasyni með magavöðvunum í netið af stuttu færi. Stuttu síðar hamraði Guðmundur Sigurðsson boltann í netið utan af velli og staðan var 2-0 í hálfleik. Einum leikmanna Afríku varð svo um við mark númer tvö að hann gekk af velli.
Hörður Jóhannsson opnaði síðari hálfleikinn með glæsilegu skallamarki eftir hornspyrnu á 50. mínútu og í stöðunni 3-0 virtust Árborgarar orðnir saddir því lítið var að gerast næstu tuttugu mínúturnar. Guðjón Bjarni Hálfdánarson, þjálfari Árborgar, sá að við þetta yrði ekki búið og sendi nýliðann Pelle Damby Carøe á vettvang. Pelle lífgaði upp á sóknarleik Árborgar og á 70. mínútu skoraði hann fjórða markið af stuttu færi eftir sendingu frá Magnúsi Helga Sigurðssyni. Pelle var á mörkunum að vera rangstæður og gestirnir mótmæltu markinu harðlega en dómari leiksins kom í veg fyrir að allt syði uppúr.
Fjórða markið kom Árborg aftur á bragðið og varamennirnir Daníel Ingi Birgisson og Ársæll Jónsson létu báðir verja frá sér í dauðafæri áður en fimmta markið leit dagsins ljós. Það var af dýrari gerðinni en Daníel tók þá glæsilegan Zidane snúning við vítateigslínuna, sneri af sér alla varnarmenn Afríku og kom sér í galopið færi sem hann nýtti vel. Mínútu síðar átti Magnús Helgi lúmskt skot að marki sem markvörður gestanna blakaði yfir með fingurgómunum.
Arnar Freyr Óskarsson skoraði sjötta mark Árborgar á 90. mínútu með skoti af stuttu færi eftir góða aukaspyrnu frá Ingimar Helga Finnssyni. Þremur mínútum síðar var brotið á Pelle innan vítateigs og enginn annar en Helgi Bárðarson fór á vítapunktinn í sínum fyrsta leik í sumar. Helgi afgreiddi spyrnuna af einstöku öryggi í netið.
Árborgarar voru ekki hættir því mínútu síðar slapp Pelle aftur upp að endamörkum og sendi fyrir á Ársæl sem sýndi gamalkunnug tilþrif með góðu skoti úr vítateignum – og boltinn söng í netinu.
Árborg er áfram í 6. sæti A-riðils 4. deildar, nú með 16 stig.